Sorgleg vanþekking spyrils Kastljóss á málefni kvöldsins

Kastljós kvöldsins var vægast sagt sorglegt, þar sátu hvor á móti öðrum Sigmar spyrill og Sigmundur Davíð að munnhöggvast um hlut sem hvorugur virtist hafa hið minnsta vit á, þ.e. greiðslujöfnunarreikninga.  Á tali Sigmundar virtist það vera að kasta peningum út um gluggann að greiða fyrst inn á greiðslujöfnunarreikninga því þeir séu ekki til þess gerðir að greiða af þeim og forsætisráðherrann virtist ekki vita neitt meira um fyrirbrigðið. 

En skemmst er frá því að segja að Greiðslujöfnun á verðtryggðar skuldir er ekki neitt sem Á.P.Á. fann upp og ekki heldur Jóhanna. Greiðslujöfnun var fyrst sett á verðtryggðar skuldir í byrjun níunda áratugs síðustu aldar þegar mismunur var hvað mestur í þróun Lánskjaravísitölu og Launavísitölu.

Í sem stystu máli virkar þetta þannig að ef hækkun Lánskjaravísitölu er meiri en hækkun Launavísitölu safnast mismunur á svokölluðu greiðslumarki og hækkun höfuðstóls á greiðslujöfnunarreikning. Þegar hallinn er á hinn veginn snýst þetta við og mismunur lækkar greiðslujöfnunarreikning, sem er allan tímann vaxtareiknaður og verðbættur eins og aðrir hlutar lánsins, þannig að greiðsla inn á jöfnunarreikningi minnkar í raun höfuðstól lánsins eins og greitt sé beint inn á hann.

Ég held að nánast allir greiðslujöfnunarreikningar sem stofnuðust á níunda áratugnum hafi tæmst áður en lánstímanum lauk eða mjög fljótlega eftir lok umsamins lánstíma.  Það er alls ekkert lögmál að Lánskjaravísitala hækki meira en Launavísitala, yfirleitt eru þær mjög nálægt pari og mér segir svo hugur um að ef þróun vísitalna heldur áfram á þann veg sem verið hefur að undanförnu verði ekki langt að bíða þess að skuldarar fari að greiða inn á greiðslujöfnunarreikninga sína.

En það var augljóst að bæði „Ísland í dag“ og Kastljós hömruðu á bullinu í stjórnarandstöðunni án þess að nenna að kynna sér málin, því spyr ég fyrir hvern eru eiginlega þessir fréttaskýringaþættir? Það er allavega ljóst að þeir eru ekki til að leiða sannleikann í ljós.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Einfaldast er að segja að greiðslujöfnunnarreikningur er hluti af höfuðstól lánsins og niðurgreiðsla hans er leiðrétting höfuðstóls. Hvar þessi leiðrétting skilar sér á lanið skiptir ekki öllu máli, það lækkar alltaf eftirstöðvarnar.

Hitt var undarlegra, þegar Sigmar fór að bulla um óréttlætið í því að vanskil væru látin ganga fyrir höfuðstól. Annað eins bull hefur sjaldan komið af munni fréttamanns og má þar þó telja margt. Auðvitað hljóta vanskilaskuldir að ganga fyrir enda einhver mesta kjarabót sem skuldari getur fengið að losna undan slíkum skuldum. Hitt mætti síðan skoða, hvort einhverjir eru í þeirri stöðu að leiðréttingin dugi ekki fyrir vanskilum. Sé svo væri kannski betra að sleppa því að hjálpa því fólki með þessari aðgerð. Kannski væri því meiri hjálp í að fara í gjaldþrot.

Gunnar Heiðarsson, 11.11.2014 kl. 08:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband