23.2.2010 | 14:55
Er þessi frétt ekki á hvolfi?
Mér finnst í sjálfu sér ekki vera frétt að 80% aðspurðra skuli vera á móti því að Jóhannes Jónsson og eða Jón Ásgeir skuli fá að eignast einhvern hlut í fyrrum fyrirtækjum sínum. Aðal fréttin er að mínu mati að tæp tuttugu prósent skuli telja ásættanlegt að menn sem eru búnir að koma lífskjörum velflestra Íslendinga aftur um nokkra áratugi skuli fá að halda yfirráðum yfir fyrirtækjum sínum án þess að borga skuldir sínar fyrst.
Það er aum þjóð sem á ekki mannskap til að reka þessi fyrirtæki án þess að safna milljarðaskuldum. Það getur varla talist stórsnilld að keyra í þrot fyrirtæki, sem ætti nánast að reka sig sjálft. Hvernig hefur til dæmis verið hægt að klúðra verslunarrekstri eins og Bónus/Aðföngum, verslun með góðan helming matvörumarkaðsins? Eða hvernig var hægt að klúðra rekstri Símans, markaðsráðandi fyrirtækis sem keypt var á líklega mjög sanngjörnu verði. Ég held að öll hagsmunasamtök landsins eigi að feta í fótspor kennarasambandsins og lýsa yfir andstöðu við að bankarnir og eða lífeyrissjóðir landsmanna verði notaðir til að koma aftur fótum undir þessa menn. Nær væri að reka þá úr landi.
Þegar þeir hafa gert upp skuldir sínar við Íslenska þjóð, gæti verið í lagi að hleypa þeim aftur að fyrirtækjarekstri undir eftirliti ábyrgra aðila, við viljum ekki lenda aftur í samskonar rússibana.
80% vilja ekki Jóhannes í Bónus | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.