24.6.2010 | 12:05
Er Ísland bananalýðveldi?
Til að fá svar við þeirri spurningu þarf að skilgreina hvað er bananalýðveldi. Upphaflega var merking orðsins sú að landi væri stjórnað af spilltri yfirstétt, landeigendum. Einkenni þessara landa er að löggjafarvald og dómsvald eru veik og lúta vilja spilltu yfirstéttarinnar.
Við Íslendingar höfum í gegn um tíðina litið niður á þessar þjóðir og talað um þær með fyrirlitningu, gjarnan sagt að hinar og þessar þjóðir, sem okkur mislíkar eitthvað við væru bananalýðveldi.
Nú þegar við erum búin að átta okkur aðeins á því hvað bananalýðveldi er, getum við skoðað í eigin barm, hvort hugsanlega geti eitthvað leynst í okkar stjórnarfari sem gerir það að verkum að við verðskuldum þennan leiða stimpil.
Það hvarflar helst að manni þegar maður heyrir sífelldar dómsdagsspár ríkisstjórnarinnar þar sem þjóðinni er hótað að ef hún geri ekki eins og ríkisstjórninni henti, hrynji allt hér á landi, jafnvel getur þetta orðið svo slæmt að stjórnin verði að segja af sér. Þetta hefur jafnvel gengið svo langt að forseta lýðveldisins var hóta að hér stæði ekki steinn yfir steini ef hann færi að vilja þjóðarinnar og stöðvaði Icesave ruglið.
Sem betur fer hefur engin þessara spádóma gengið eftir, enn áfram skal haldið,í fréttum sjónvarps í gærkvöldi komu bæði grátklökki ráðherrann og leiguþý hans fram og tilkynnu þjóðinni að fari Hæstiréttur landsins ekki að þeirra óskum sé yfirvofandi hrun alls bankakerfisins, þar held ég að Ísland hafi fyrir fullt og allt fallið í hóp bananalýðvelda, jafnvel komist þar mjög framarlega á blað.
Það er ekki á hverjum degi sem bæði ráðherra úr ríkisstjórn og seðlabankastjóri þjóðar sem telur sig með fremstu þjóðum heims hvað varðar lýðræði og mannréttindi komi fram í sjónvarpi til að hafa áhrif á æðsta dómsvaldið landsins með hótunum, en það höfum við Íslendingar upplifað nú.
En um hvað snýst málið? Jú lánastofnanir tóku áhættu með því að, vitandi vits lána fólki peninga verðtryggða miðað við gengi erlendrar myntar, í flestum tilvikum blöndu nokkurra gjaldmiðla, svokallaða myntkörfu, þrátt fyrir skýr ákvæði laga um vexti og verðtryggingu nr. 38 frá 26. Maí 2001 um ólögmæti þess, en í 14. Grein þeirra laga stendur:
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv.13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði.Það ætti að vera hverjum manni, sem lesið hefur þessa grein, ljóst að um ólöglegt athæfi var að ræða, enda hefur Hæstiréttur Íslands tekið af allan vafa þar um. Í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar hafa sprottið upp umræður og vangaveltur um hvað beri að gera að fengnum þessum niðurstöðum. Þar hafa menn komið fram, jafnvel fólk sem talið er vera nokkuð þokkalega læst og með skilning á íslensku máli, s.s. prófessorar við háskóla landsins, ráðherrar og þingmenn og fleiri, sem virðast ekki skilja einfalda Íslensku í umræddum lögum. Dæmi þar um er túlkun á 18. Grein umræddra laga en hún hljóðar svo:
18. gr. Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildurog hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honumhaft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt Það virðist vefjast fyrir þessu fólki eftirfarandi texti og hafi endurgjald verið greitt það þýðir á Íslensku ef búið er að greiða skuldina miðað við ógildan samning, ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt. Og 4. Grein laganna hljóðar svo: 4. gr. Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.. Þetta segir okkur sem höfum skilning á Íslensku að því aðeins að búið sé að greiða of mikið af láninu komi þetta ákvæði til og þá aðeins þegar verið er að reikna vexti á umframgreiðslurnar. Það er hvergi minnst á að á einn veg eða annan skuli farið með umsamdar vaxtaprósentur í lánasamningunum, ákvæði samninganna þar um hljóta að standa, það voru lánastofnanirnar sem gerðu samningana, lántakendur höfðu ekkert um texta þeirra að segja, annaðhvort gátu þeir samþykkt þá eða verið án lánsins. Ráðherrann og hans lið hótar því að bankakerfið fari á hausinn ef ekki verður farið að hans vilja, en hvað með það? Nýlega svaraði umræddur ráðherra fyrirspurn Einar K. Guðfinnssonar á alþingi um eignarhald á nýju bönkunum, en að því að manni skilst eru 2 stærstu bankarnir í eigu kröfuhafa í gömlu bankanna. Á lista yfir þá kennir ýmissa grasa, nöfn sem meirihluti Íslendinga hefur ekki snefil af samúð með, eins og Glitnir bank Luxembourg S.A. , Sparisjóðabanki Íslands hf., Thingvellir fund L.L.C. (hver er að fela hvað í þessu) Exista hf. , Skipti hf., Stoðir hf., Saga Capital hf., Kjalar hf., Geysir Advisors L.L.C., og svo má lengi telja. Er eitthvert þessara nafna sem öðrum en viðskiptaráðherra og Seðlabankastjóra er ekki sama um?, sennilega eru mikið fleiri nöfn á listanum sem fela fólkið sem kom þjóðinni í þann vanda sem hún er nú í. Auk þess hefur það verið vitað frá hruni bankanna á haustmánuðum 2008 að bankakerfi á Íslandi er allt of stórt. Það ætti ekki að koma að sök að láta svo sem einn þeirra róa. Fjöldi banka og útibúa minnir nokkuð á fjölda bensínstöðva á Höfuðborgarsvæðinu. Fjöldinn skiptir ekki máli, viðskiptavinurinn borgar óráðsíuna, hann hefur ekki í önnur skjól að venda. Spurningunni um hvort Ísland sé bananalýðveldi verður svarað þegar Hæstiréttur Íslands hefur kveðið upp lokadóm í málinu, fer hann að lögum eða fellur hann fyrir hótunum framkvæmdavaldsins.Ég hef að fenginni reynslu fulla trú á að Hæstiréttur láti ekki kúga sig til hlýðni, heldur haldi sig við bókstaf laganna og vona að æðsta stjórn þjóðarinnar hætti að haga sér eins og óþekkir krakkar.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.